Maðurinn sem leitar að börnunum okkar og ungmennum, þegar í óefni er komið, er Guðmundur Fylkisson. Hann er gestur Dagmála í dag og ræðir þar starfið og sín kynni af kerfinu sem vinnur með þessa ungu einstaklinga.
Hann telur ekki rétt að vera með Stuðla sem nánast eina úrræðið og gagnrýnir lokun Háholts í Skagafirði. Í tíu ár hefur hann leitað uppi 490 ungmenni en markmið starfsins er að halda þessum ungmennum á lífi fram yfir 18 ára aldurinn. Það er sá aldur þegar þau hverfa úr hans umsjón, ef þannig má taka til orða. Þá þurfi að huga betur að aðstandendum og þeim stóra hópi sem stendur að hverju barni á villigötum. Hjónaskilnaðir, sjálfsvígshugsanir og heilsuleysi sé algengt hjá fólki sem elur upp barn í miklum fíknivanda.