Erna Mist
Á bak við hverja frétt býr hugmyndafræðileg afstaða, á bak við hverja auglýsingu býr einbeittur ásetningur, á bak við hvert viðtal býr pólitísk sannfæring, á bak við hvern pistil býr persónulegt sjónarmið. Nútímaleg kosningabarátta er ekki keyrð áfram á málefnakynningum eða hugsjónastarfi, heldur getu frambjóðenda til að segja sannfærandi sögu um sig og andstæðinga sína. Fjölmiðlafóður verður öflugasta eldsneytið, frambjóðendur horfa upp á vopnvæðingu fortíðar sinnar, og þjóðfélagsumræðan verður að vígvelli. Á tímum margmiðlunar þar sem fjölmiðlar, samfélagsmiðlar og afþreyingariðnaðurinn hafa runnið saman í eitt stafrænt landslag hefur sannleikurinn orðið að fleirtöluorði, og nú er sannleikurinn einfaldlega sá sem flestir trúa að hann sé.
Orð eru rifin upp með rótum úr sínum upprunalega málflutningi og plantað í framandi samhengi, tæmd
...