Barátta Emilie Hesseldal og Gígja Rut Gautadóttir eigast við í leik Njarðvíkur og Hamars/Þórs í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi.
Barátta Emilie Hesseldal og Gígja Rut Gautadóttir eigast við í leik Njarðvíkur og Hamars/Þórs í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Skúli B. Sigurðsson

Haukar og Njarðvík, tvö efstu lið úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, unnu bæði örugga sigra þegar 7. umferð fór af stað með tveimur leikjum í gærkvöldi. Haukar heimsóttu Grindavík í Smárann í Kópavogi og unnu 85:68. Þar með halda Haukar toppsætinu en Hafnfirðingar hafa unnið sex af fyrstu sjö leikjum sínum og eru með 12 stig. Grindavík er áfram í sjötta sæti með sex stig.

Lore Devos fór á kostum í liði Hauka og skoraði 28 stig ásamt því að taka tíu fráköst. Hjá Grindavík var Katarzyna Trzeciak stigahæst með 21 stig.

Njarðvík fékk nýliða Hamars/Þórs í heimsókn og vann örugglega, 98:70. Njarðvík er eftir sigurinn í öðru sæti með 10 stig og Hamar/Þór er áfram í fjórða sæti með sex stig.

Ena Viso var stigahæst hjá Njarðvík með 19 stig og sjö fráköst. Í liði Hamars/Þórs var Hana Ivanusa stigahæst með 15 stig og átta fráköst.