Íslenska liðið sýndi allar sínar bestu hliðar framan af og var það algjörlega verðskuldað þegar Andri Lucas Guðjohnsen skoraði fyrsta markið. Baráttan var til fyrirmyndar og gæðin í íslenska liðinu eru það mikil fram á við að það skorar nær alltaf. Mörkin hefðu líka getað verið fleiri, því íslenska liðið var að skapa sér færi. Ísland stýrði miðsvæðinu og varnarmennirnir voru öruggir í sínum aðgerðum.

Eftir því sem leið á hálfleikinn komst Wales betur inn í leikinn og það hjálpaði ekkert að Orri Steinn Óskarsson þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Við það riðlaðist leikur Íslands. Wales sótti mikið upp kantana og komust kantmenn Wales aftur fyrir þá Alfons Sampsted og Valgeir Lunddal Friðriksson og sköpuðu hættu. Wales hélt boltanum betur, og íslenska liðið lenti í vandræðum á miðsvæðinu, þrátt fyrir að Andri Lucas hafi fengið færi til að skora fleiri mörk.

...