Götur og gangstéttir víða um land hafa verið undirlagðar hálku eftir frosthörkur síðustu vikna og leituðu sextíu manns aðhlynningar hjá bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi á fimmtudaginn vegna hálkuslysa. Fjöldinn sem leitaði til bráðamóttökunnar er með því mesta sem þekkist í sögu deildarinnar en af þeim sextíu sem leituðu aðhlynningar hlutu tuttugu og níu beinbrot og fjórir heilahristing.
Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að óvenjufá umferðarslys og -óhöpp hafi verið tilkynnt til lögreglunnar á síðustu vikum miðað við síðustu mánuði. „Það er eins og fólk fari til að byrja með hægt og gætilega þegar akstursskilyrði breytast hratt en svo fer það oft að venjast skilyrðunum og eykur þá hraðann aftur.“
Guðbrandur segir að oft séu um þrjátíu umferðaróhöpp tilkynnt lögreglu í hverri viku, þar af fjögur til sex slys þar sem menn hljóta skaða af. Hann segir efri mörk slasaðra á einni
...