Vinstristjórnin sjálf er helsta ógnin

Að sögn ganga stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins ljómandi vel, þó af þeim fréttist nær ekkert, en stefnt er að því að hefja ritun stjórnarsáttmála eftir helgi.

Þegar í upphafi lá fyrir að erfiðast yrði fyrir þær Kristrúnu Frostadóttur, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingu Sæland að ná saman um ríkisfjármál og skatta. Þar á milli var himinn og haf í málflutningi flokkanna í kosningabaráttu og ekki um nein aukaatriði, heldur aðaláherslur flokkanna þriggja.

Samfylking boðaði plan um stóraukin ríkisútgjöld og skattheimtu til að standa undir þeim, Viðreisn hafnaði alfarið skattahækkunum, en Flokkur fólksins gerði stórkostleg og ábyrgðarlaus ný ríkisútgjöld að höfuðmáli. Það er erfitt ef ekki ómögulegt að samræma það, án þess að a.m.k. einn flokkanna þurfi að falla frá meginmáli sínu þegar í upphafi.

...