Noregur, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, tryggði sér í gærkvöld sæti í úrslitaleik EM 2024 í handknattleik kvenna með sigri á gestgjöfum Ungverjalands, 30:22, í undanúrslitum í Vín í Austurríki. Liðið mætir Danmörku, sem vann Frakkland 24:22 í hinum undanúrslitaleiknum, í úrslitaleik í Vín á morgun.
Þórir, sem hefur þjálfað Noreg frá árinu 2009 og lætur af störfum eftir mótið, hefur þar með stýrt liðinu í úrslit á Evrópumóti í sjö af átta skiptum sem hann hefur þjálfað það. Undir stjórn Þóris hefur liðið unnið fimm gull og eitt silfur á Evrópumótunum sjö fyrir þetta mót. Freistar Selfyssingurinn þess að bæta sjötta Evrópugullinu í safnið.
Í leiknum í gærkvöldi var Henny Reistad markahæst með sjö mörk fyrir Noreg. Reynsluboltinn Katrine Lunde átti frábæran leik í markinu og varði 11 skot, sem gerir 42 prósent markvörslu. Katrin Klujber var markahæst hjá Ungverjalandi með fimm mörk. Kinga Janurik varði tíu skot í markinu.