Bankastarfsmenn í Lvív-borg í vesturhluta Úkraínu sækja hér rafal til þess að sjá útibúi sínu fyrir rafmagni. Rafmagnslaust var í borginni í gær en Rússar gerðu eina af stærstu eldflaugaárásum sínum á Úkraínu frá upphafi innrásarinnar, í gærmorgun.
Beindist árásin að raforkuframleiðslu Úkraínumanna, og sögðu stjórnvöld í Moskvu að hún hefði verið gerð í hefndarskyni fyrir að Úkraínumenn skutu bandarískum ATACMS-eldflaugum á rússneskan herflugvöll fyrr í vikunni.
Rússar skutu 94 eldflaugum, bæði stýriflaugum og skotflaugum, í árásinni, en auk þess sendu þeir næstum 200 sjálfseyðingardróna til árása á skotmörk í Úkraínu. Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi árásina og sagði hana sýna að Pútín Rússlandsforseti hefði engan áhuga á friði.