Guðrún Brá Björgvinsdóttir endaði í 57. sæti af 154 keppendum á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi en fimmti og síðasti hringurinn var leikinn í Marrakech í Marokkó í gær. Guðrún átti sinn besta hring, lék á þremur höggum undir pari og lauk keppni á samtals tveimur höggum undir pari. Efstu 24 konurnar unnu sér inn keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári en þær léku á 10 höggum undir pari eða betur.