— AFP/ Ahmad Al-Rubaye

Sól hnígur til viðar í baksýn hinna brennandi gasloga Daura-olíuhreinsunarstöðvarinnar í suðurhluta írösku höfuðborgarinnar Bagdad í gær. Stöðin sú á sér langa sögu og merkilega, en það var Faisal I Írakskonungur sem ól með sér þann draum að byggja olíuhreinsunarstöð í landinu. Tók þrekvirkið rúma tvo áratugi og rættist draumur konungs á valdatíma sonarsonar hans, Faisals II, sem „viðburður þrunginn gríðarmikilli sögulegri þýðingu“, eins og það var þá orðað í tímariti Íraks um eldsneytismál.

Enn starfar Daura-stöðin á bökkum hinnar voldugu Dijlah-ár og hefur staðið af sér byltingu og stríð sem orðið hafa minnisvarðar um íraskar ögurstundir. Vestrænt tæknilið annaðist reksturinn fyrstu árin en hvarf á braut þegar konungdæminu var steypt 1958.