Maður sem skotinn var fjölda skota og til bana í bílastæðahúsi í miðbæ sænsku borgarinnar Norrköping á fimmtudagskvöldið reynist nú hafa verið rapparinn Gaboro í lifanda lífi. Setti hann svip á rappsenu Norrköping um árabil en hann var 25 ára gamall þegar óþekktir tilræðismenn létu til skarar skríða. Það var sænska ríkisútvarpið SVT sem greindi frá þessu um helgina en vitað er að rapparinn hafði töluverð tengsl við sænska undirheima og það blóðuga gengjastríð er þar hefur geisað undanfarin misseri með linnulitlum skot- og sprengjuárásum og fjölmiðlar um gervöll Norðurlönd hafa greint ítarlega frá.