Mörg krefjandi verkefni eru fram undan á sviði utanríkismála og í vörnum landsins. Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem í gær tók við lyklavöldum í utanríkisráðuneytinu. Um þessar mundir eru Bandaríkjamenn að byggja upp aðstöðu sína á Keflavíkurflugvelli og slíkt segist ráðherrann styðja. Henni hafi raunar verið fullkunnugt um þessa uppbyggingu um nokkurn tíma sem fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis.

Ný ríkisstjórn boðar þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild árið 2027. Ráðherra segir að með því gefist ágætur umþóttunartími til að kynna sér mál, svo sem fyrir fulltrúa atvinnulífsins. Margt geti líka gerst í Evrópumálum þangað til. Mikilvægt sé líka að styrkja samband Íslands og ESB, rétt eins og Norðmenn geri um þessar mundir. sbs@mbl.is