Dramatík Norðmaðurinn Alexander Sörloth fagnar sigurmarki Atlético.
Dramatík Norðmaðurinn Alexander Sörloth fagnar sigurmarki Atlético. — AFP/Josep Lago

Miklar sviptingar urðu í spænska fótboltanum um helgina þegar Barcelona hóf umferðina á toppnum en lauk henni í þriðja sæti.

Atlético Madrid sótti þrjú stig til Barcelona, vann 2:1, og er nú í efsta sæti eftir mikla sigurgöngu undanfarnar vikur. Pedri kom Barcelona yfir í fyrri hálfleik en Rodrigo de Paul jafnaði og Norðmaðurinn Alexander Sörloth skoraði sigurmark Atlético í uppbótartímanum.

Þetta var sjöundi sigurinn í röð hjá Diego Simone og lærisveinum hans í Atlético.

Real Madrid nýtti sér þetta og komst í annað sætið, stigi á eftir Atlético, með því að vinna Sevilla, 4:2, á Bernabeu í Madríd í gær.

Kylian Mbappé, Federico Valverde, Rodrygo og Brahim Diaz skoruðu fyrir Real Madrid sem var komið í 4:1 í byrjun síðari hálfleiks.

Atlético er með 41 stig, Real Madrid 40 og Barcelona 38 stig, og Barcelona er með einum leik fleira.