Ólöf, eða Ollýgunn eins og hún var allajafna kölluð, fæddist 1. apríl 1945 í Austur-Skálanesi, Hofssókn í Vopnafirði. Hún lést á Landspítalanum 27. nóvember 2024.

Foreldrar Ólafar voru Vera Valborg Einarsdóttir Maack, f. 13. desember 1911, d. 21. júní 2001, og Jón Guðmundsson, f. 13. nóvember 1903, d. 7. desember 1973. Móðurafi Ólafar var Einar Thorsteinsson Maack, f. 10. nóvember 1878, d. 19. mars 1969. Systir Ólafar var Borghildur Maack, f. 4. maí 1943, d. 3. ágúst 2021. Uppeldissystir Ólafar er Sigrún Þorgeirsdóttir, f. 22. janúar 1935.

Þann 2. nóvember 1968 giftist Ólöf Árna Friðriki Markússyni, f. 1944, d. 2023. Þau skildu. Með Árna eignaðist Ólöf tvær dætur: 1) Katrínu Rut, f. 18. apríl 1971, maki Jón Gunnar Jóhannsson, f. 5. október 1970. Synir þeirra eru Sindri Hrafn, Ísak Már og Adam Árni. 2) Jónu Valborgu, f. 2. október 1973, maki Vilhjálmur Bergs, f. 17. maí 1972. Börn þeirra eru: Garpur Orri, Viktor Nói og Vera Vigdís. Árið 1977 hóf Ólöf sambúð með Leifi Haraldi Jósteinssyni, f. 26. desember 1940, d. 17. janúar 1998. Þau slitu samvistum. Sonur þeirra er 3) Hrafnkell Logi, f. 2. október 1982, maki Valéria Freitas. Dóttir þeirra er Alice Freitas og sonur Hrafnkels af fyrra sambandi er Janus Smári. Ólöf hóf sambúð með Gústafi Magnússyni árið 1990. Börn hans eru Heiða, Ágúst og Silla. Þau slitu samvistum.

Ólöf bjó til fimmtán ára aldurs á Vopnafirði. Þá flutti hún til Reykjavíkur og lauk grunnskólagöngu sinni í Hagaskóla. Hún stundaði nám við Gagnfræðaskóla verknáms og lauk þaðan prófi 1963. Hún lærði tannsmíði hjá Herði Sævaldssyni tannlækni í Tjarnargötu og starfaði við fagið í upphafi starfsferils síns. Þaðan lá leiðin til Heyrnar- og talmeinastöðvar þar sem hún starfaði sem hlustastykkjasmiður í 25 ár. Síðasta hluta starfsævinnar starfaði hún hjá Sjúkraþjálfunarstöðinni.

Ólöf var lengst af einstæð móðir með þrjú börn; hún lagði metnað sinn í að búa börnum sínum gott heimili. Hún var hvetjandi og örlát, góður hlustandi og til staðar þrátt fyrir að síðustu æviárin hafi reynst henni erfið vegna veikinda. Ólöf var skáld, hún orti kvæði og lög, en fór leynt með hæfileika sína.


Útför fór fram í kyrrþey.

Elsku besta mamma mín, það er óraunverulegt að vera að skrifa um þig minningargrein og tárin streyma. Þú sem gast allt og gerðir allt. Þú sýndir það allt þitt líf hvað þú varst alltaf sterk og dugleg. Þegar verkefnin urðu bæði erfiðari og flóknari þá gafstu aldrei upp. Þú barðist allt til enda elsku mamma mín og eins og ég nefndi oft við þig þá varstu algjör hetja. Það verður erfitt án þín elsku mamma mín. Við vorum alltaf svo samrýmdar eins og þú nefndir líka við mig rétt áður en þú kvaddir. Þú varst líka alltaf með netta hvíta símann þinn í hendi og ég mun sakna allra símtalanna þinna á hverjum degi. Ég mun sakna þess að geta ekki lengur fært þér allt þitt uppáhalds og notið sömuleiðis með þér. Heyrt þig lesa upp innkaupalistann þar sem þú sagðir svo alltaf: Þú finnur svo alltaf eitthvað sniðugt og gladdist yfir því þegar ég kom með eitthvað nýtt og óvænt.

Við eigum svo góðar minningar saman elsku mamma mín. Þú hjálpaðir mér svo mikið og varst alltaf til staðar fyrir mig og þegar ég leitaði til þín. Ég man hvað þú varst spennt að verða amma. Þú hrópaðir af svo mikilli gleði þegar þú fékkst þær fréttir. Þú varst svo spennt og varst alltaf að koma með eitthvað handa verðandi barnabarninu og komst með frá Spáni fallegan bláan barnavagn sem Sindri ömmustrákur svaf svo tímunum saman í. Þetta var töfravagn því hann þoldi allar göngur í þvílíka snjónum, alla hossingana yfir hóla og hæðir enda elskaði ömmustrákurinn allt þetta og svaf iðulega veðrið af sér.
Svo bættist í hópinn og barnabörnunum fjölgaði. Þér fannst gaman að fylgjast með þeim vaxa og dafna. Þú varst alltaf einstaklega áhugasöm um einkunnir þeirra og skrifaðir þær niður og geymdir hjá þér. Þú varst stolt amma og þú elskaðir myndaalbúmin sem þú sagðist alltaf vera að skoða eins og allar myndirnar á ísskápnum. Myndirnar gáfu þér mikið og styttu dag og stundir.

Þú varst afar skipulögð og beiðst alltaf spennt eftir árlega myndadagatalinu þínu sem ég færði þér ávallt í nýársgjöf. Þú fórstu í gegnum hvern mánuð fyrir sig sem innihélt myndir og minningar. Það verður skrítið að þau dagatöl verða ekki fleiri til að gleðja þig með. Elsku mamma mín, það verður margt mjög erfitt, óraunverulegt og skrítið án þín. En ég er þakklát fyrir allt okkar og allar þær minningar sem enginn frá okkur tekur. Þú gast verið svo fyndin og þá var gaman að hlæja saman. Við höldum áfram að vera samrýmdar þó lengra verði nú á milli okkar en við vorum báðar næmar og ég veit að þú verður hér áfram hjá mér eins og alltaf í mínu hjarta. Það er svakalega erfitt að kveðja þig elsku mamma mín en að hafa getað verið til staðar fyrir þig og allt til enda eru minningar sem aldrei gleymast. Vertu hjá mér sagðir þú inni á spítala og ég gat haldið í höndina þína dag sem nótt þegar á reyndi. Ég veit að pabbi hefur nú tekið vel á móti þér í Sumarlandinu og allir hinir og þar hafa verið góðir endurfundir. Ég lofa mamma mín að reyna að vera eins sterk og þú og mun ég hugga mig við allt okkar góða með miklu þakklæti. Fallega ljóðið sem þú samdir um mig sem þá var lítil fimm ára stelpa mun fylgja mér út ævina og dýrmætt að eiga handskrifað frá þér sem og lagið í huganum sem þú söngst við ljóðið.

Mamma mín, þú varst mikill fagurkeri og skreyttir fallegustu jólapakkana sem þú varst svo natin við. Alltaf eitthvert fallegt skraut fylgdi hverjum pakka. Rauð epli og falleg kramarhús sem voru fyllt me macintosh-molum prýddu jólatréð þitt. Við ræddum þessi komandi jól og allt það fallega sem kom frá þér og ómissandi kræsingarnar og jólahefðir. Eins og heimsins bestu piparkökurnar þínar þar sem allt var gert frá grunni og þær skreyttar svo fallega með glassúri í öllum regnbogans litum sem þú fylltir í kramarhús sem þú föndraðir við. Þú gerðir allt svo vel mamma mín og við höfum ávallt haldið í þessa árlegu hefð sem á sama tíma færir okkur jólin. Við ferðuðumst og sáum heiminn saman, meðal annars til Þýskalands, Spánar, Kanada, New York og upplifðum ein áramót saman í Baltimore þegar ég starfaði sem flugfreyja. Þetta eru allt afar dýrmætar minningar sem aldrei gleymast. Þú varst stoð mín og stytta. Þú hjálpaðir mér að láta drauma mína rætast og meðal annars einn mjög stóran þegar ég ákvað að fara út sem skiptinemi til Þýskalands 18 ára gömul. Þú varst alltaf til staar og ég á dýrmætar minningar í öllum okkar bréfaskriftum á þeim tíma sem var löngu fyrir netið og því lánsöm að eiga handskrifuð bréf frá þér sem snertu alltaf hjartað. Elsku mamma mín, ég mun heimsækja þig næst á nýjan stað þar sem þú munt hvíla og passa vel upp á að varðveita allar dýrmætu minningarnar því þannig lifir þú áfram. Þar til við hittumst á ný elsku mamma mín, hlýtt faðmlag og koss á kinn. Takk fyrir þig, lífið og ALLT okkar.

Stóra stelpan þín, Katrín eins og þú kallaðir mig ekki fyrir löngu sem fylgdi með hlýtt knús.

Elskulega mamma mín
mjúk er alltaf höndin þín.
Tárin þorna sérhvert sinn
sem þú strýkur vanga minn.
Þegar stór ég orðin er
allt það skal ég launa þér.


(Sig. Júl. Jóhannesson)




Katrín.