Á jólum komum við saman og syngjum sálmana sem kalla fram minningar um jól barnæskunnar og við sköpum framtíðarminningar með börnunum okkar.
— Mynd/Colourbox

Guðrún Karls Helgudóttir

Í byrjun desember ár hvert breytist allt. Þá hefst aðventan, dimmasti tími ársins. Jólaskreytingar og kertaljós eru því mörgum kærkominn léttir í þyngslum skammdegisins. Á þessum árstíma hellist yfir sum okkar annars konar myrkur því að í nútímasamfélagi fylgja jólunum ýmsar kvaðir. Tómir stólar við jólaborðið þar sem ástvinir sátu áður eru viðkvæm áminning um missi og söknuð auk þess sem útgjöld eru erfið fyrir mörg okkar. Börnin þurfa að fá dagatal og jólagjafir og maturinn kostar sitt. Það þarf að þrífa heimilið, sjá til þess að skórnir fari út í glugga og að jólasveinarnir eigi fyrir gjöfunum í þá. Þá þarf að kaupa í matinn, skreyta jólatréð, pakka inn gjöfum og mögulega fara upp í kirkjugarð áður en jólin ganga í garð.

Þetta er ekki auðvelt fyrir neitt okkar en ef verkefnin verða þér óyfirstíganleg, ef myrkrið er dimmara

...