Á jólunum er gleði og gaman, fúmm, fúmm, fúmm, þá koma allir krakkar með í kringum jólatréð, er sungið í þekktu jólalagi við texta Friðriks Guðna Þórleifssonar. Sannarlega orð að sönnu.
Jólin eru hátíð barnanna er gjarnan sagt, en fátt gleður þau meira en að hitta jólasveinana þegar þeir koma til byggða, mæta á jólaböllin og dansa í kringum jólatré. Þó að jólasveinarnir séu aðeins 13 talsins ná þeir að komast yfir ótrúlega þétta dagskrá á aðventunni um borg og bý. Fara hratt yfir og stoppa stutt á hverjum stað. Eftir standa börnin glöð í bragði flest hver, þótt vissulega séu einhver smeyk við þá rauðklæddu ef þeir eru með mikla háreysti. Sveinkar skilja eftir sig góðgæti úr poka en í seinni tíð hefur gotterí tekið yfir epli og mandarínur sem gjarnan voru á boðstólum fyrrum.
Mestu skiptir að börnin eigi gleðileg jól þótt við vitum að þannig
...