Nýársheitið er viljinn, markmiðasetningin tæknin og dagbókin verkfærið. Viljinn einn og sér nægir ekki – hann þarf farveg, vörðu og mælistiku.
Árni Sigurðsson
„Fyrst er að vilja, afgángurinn er tækni.“
– Halldór Kiljan Laxness, Kristnihald undir jökli.
Nýtt ár markar tímamót þar sem við stöndum á mörkum þess sem var og hins sem koma skal. Nýársheitin endurspegla þetta: Við horfum til baka, drögum lærdóm af fortíðinni en beinum svo sjónum fram á við, full vonar um að bæta líf okkar. Hornsteinn þessara væntinga er viljinn – innri hvötin sem kveikir löngunina til að verða betri útgáfa af sjálfum okkur. Samkvæmt orðum Laxness er viljinn upphafið; síðan notum við „tæknina“ til að láta hann raungerast.
Kjarni nýársheita: Hvað viltu í raun?
Nýársheitin eiga rætur í þessari spurningu: „Hverju vil ég virkilega breyta eða bæta
...