Katla, sem er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, starfaði á sínum yngri árum hjá Vinnslustöðinni þar í bæ. Svo tók annað við.
Hvert lá leið þín eftir þetta?
„Ég fór að vinna á elliheimilum og það leiddi til þess að ég ákvað að sækja mér sjúkraliðamenntun í þeirri von að geta sinnt eldri borgurunum betur og hækkað aðeins í launum. Ég flutti norður á Akureyri og útskrifaðist sem sjúkraliði og lauk einnig stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum þar árið 2018, þá 29 ára gömul. Þetta var samt skrykkjótt vegferð hjá mér, ég stoppaði stundum stutt við í þessu námi, skellti mér í annað, lærði til dæmis snyrtifræði hjá Snyrtiakademíunni og ætlaði svo á einum tímapunkti að skrá mig í fatahönnun, án þess að hafa nokkurt vit á tísku. Á þessu má sjá að hugur minn var talsvert á reiki og ég átti eftir að taka eina krappa beygju nokkrum árum síðar.
...