Vatn rennur nú með eðlilegum hætti um Hvítá, sunnan við Hestfjall við Brúnastaði í Flóa, og ekki flæðir lengur yfir bakka og út í áveituskurðinn sem þar liggur fram engi. Slíkt gerðist í síðustu viku og vegna þess voru uppi áhyggjur, það er að…
Vatn rennur nú með eðlilegum hætti um Hvítá, sunnan við Hestfjall við Brúnastaði í Flóa, og ekki flæðir lengur yfir bakka og út í áveituskurðinn sem þar liggur fram engi. Slíkt gerðist í síðustu viku og vegna þess voru uppi áhyggjur, það er að íshrannir gætu stíflað ána svo vatni færi að flæða fram lágsveitir Flóans.
Að sögn kunnugra er sú hætta raunar enn til staðar fari skyndilega að hlýna, en þá ber að taka fram að brunagaddi er spáð á þessum slóðum næstu daga. Margir voru á ferðinni við Brúnastaði í gær til að skoða aðstæður, auk þess sem vísindamenn, Vegagerð og viðbragðssveitir fylgjast vel með framvindunni með tilliti til náttúruvár. sbs@mbl.is