Kona á sextugsaldri lést af sárum sínum í Magdeburg í Þýskalandi. Konan varð fyrir árás á jólamarkaði í borginni 20. desember. Alls eru því sex látnir eftir árásina en hið minnsta 299 manns slösuðust eftir að karlmaður ók á ofsahraða inn í fjölmennan hóp á jólamarkaðnum.
Fjórar konur á aldrinum 45 til 75 ára létust í árásinni auk hins níu ára Andrés Gleißners.
Hinn fimmtíu ára gamli Taleb al-Abdulmohsen var handtekinn í kjölfar árásarinnar, en enn er á huldu hvers vegna hann framdi voðaverkið. Er hann talinn hafa verið einn að verki.
Abdulmohsen var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna árásarinnar og er sakaður um manndráp, tilraun til manndráps og alvarlegar líkamsárásir.
Hann hefur búið í Þýskalandi frá árinu 2006, er ættaður frá Sádi-Arabíu og er geðlæknir að mennt. Varað hafði verið við honum áður en hann framdi árásina.