Árið á innlenda hlutabréfamarkaðnum þróaðist með nokkuð öðrum hætti en búist var við í upphafi árs og á það sérstaklega við um fyrrihluta ársins. Verðbólgan var mjög þrálát framan af ári sem hafði í för með sér að vaxtalækkunarferlið hófst mun síðar en búist hafði verið við og því skilaði ávöxtun ársins sér nær öll á síðustu þremur mánuðunum.
Úrvalsvísitalan (OMXI15) hækkaði um 15,9% á árinu og stóð í lok árs í 2849,5 stigum. Leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði vísitalan (OMXI15GI) um 18,8%. Heildarvísitala Aðalmarkaðarins (OMXIPI) hækkaði um 12,5% á árinu og leiðrétt fyrir arðgreiðslum (OMXIGI) hækkaði vísitalan um 14,7%.
Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 1.251 milljarði eða 5.046 milljónum á dag. Til samanburðar var veltan með hlutabréf árið 2023 784,7 milljarðar, eða 3.139 milljónir á dag, og jókst veltan því um 61% milli ára.
...