Danski listamaðurinn Asger Jorn og myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson kynntust í Kaupmannahöfn árið 1937 og urðu fljótlega samherjar í listinni og síðar, á hernámsárunum, í dönsku andspyrnuhreyfingunni. Jorn hafði numið hjá franska listamanninum Fernand Léger og verkið Tron II, unnið í París, vottar um sterk áhrif frá Léger.
Myndmál verksins einkennist af samslætti lífrænna eða „bíómorfískra“ forma sem fljóta á bláum grunni, eins og í lausu lofti. Fimm ílöng form, sem minna í senn á líkama og trjávið, liggja samsíða lóðrétt á myndfletinum en umhverfis þau eru smærri, óræð form sem ýta undir þrívíddarvirkni verksins og ráðgátukennt myndmálið. Eins og fleiri verk Jorns á þessum árum minnir Tron II á þau myndverk Légers frá ofanverðum þriðja áratugnum þar sem helst gætir súrrealisma í órökrænum tengslum forma á mörkum hins óhlutbundna, svífandi í tómarúmi.
...