Einn af virtustu leiklistarskólum Bretlands, Bristol Old Vic Theatre School, mun frá og með haustinu ekki taka inn nýja nemendur. Er það vegna þeirrar áætlunar skólans að leggja niður grunnnám þar sem það er ekki talið arðbært. Variety greinir frá og segir þar að meðal þekktra leikara sem stundað hafi nám í skólanum megi nefna þau Daniel Day-Lewis, Oliviu Colman og Patrick Stewart.
Þá hafi skólinn einnig haft nemendur í gegnum árin eins og Jeremy Irons, Naomie Harris, Josh O'Connor og Gene Wilder. Áfram verði þó boðið upp á framhaldsnámskeið í atvinnuleik á sviði, í sjónvarpi sem og í leikstjórn.
Í yfirlýsingu á vefsíðu skólans kemur fram að nýlegar áskoranir séu helsta ástæðan fyrir breytingunni. Feli þessar áskoranir meðal annars í sér að hámarksþak hafi verið sett á námsgjöld, ákveðnar takmarkanir séu á vegabréfsáritunum hjá erlendum námsmönnum og framfærslukostnaður fari síhækkandi.