Umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið árið 2024 var sú mesta frá upphafi. Skiptir þá engu hvort litið er til fjölda flugferða eða fjölda floginna kílómetra á svæðinu.
„Við búumst við enn meiri flugumferð á árinu 2025,“ segir Kjartan Briem, framkvæmdastjóri Isavia ANS, dótturfélags Isavia sem sinnir flugleiðsöguþjónustu í innanlands- og alþjóðaflugi á íslenska flugstjórnarsvæðinu.
Alls flugu yfir 200.000 flugvélar í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið á síðasta ári og það er metár hjá flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Stærsti hluti flugumferðarinnar eru vélar sem fljúga yfir Norður-Atlantshafið á leið sinni milli Evrópu og N-Ameríku og hafa ekki viðkomu á Íslandi.
Íslenska flugstjórnarsvæðið er um fimm og hálf milljón ferkílómetra að stærð og er eitt stærsta flugstjórnarsvæði heims. Það nær frá Greenwich-lengdarbaugnum í austri og vestur fyrir Grænland, frá Norðurpólnum og suður fyrir Færeyjar, langleiðina til Skotlands.
Að meðaltali fara
...