Hörður Rúnar Úlfarsson fæddist í Reykjavík 3. júní 1966. Hann lést á bráðamótöku Landspítalans 12. desember 2024. Hann var sonur Helgu Magnúsdóttur, f. 3.4. 1945, og Úlfars Arnars Harðarsonar, f. 9.5. 1947, d. 10.1. 2022.

Bróðir Harðar var Vilberg Úlfarsson, f. 11.3. 1971, d. 8.9. 2001. Barnsmóðir Harðar er Kristín Ólavía Sigurðardóttir, f. 5.1. 1967, dóttir þeirra er Pálína Guðrún Harðardóttir, f. 20.12. 1985, unnusti hennar er Ísak Jarl Þórarinsson, f. 25.5. 1984. Sonur þeirra er Hrafnkell Hörður Ísaksson, f. 8.11. 2021. Hörður kvæntist 7.2. 2020 Nidiu Sandoval, f. 19.5. 1963.

Hörður starfaði lengst af á þungavinnuvélum og við vörubílaakstur síðustu árin hjá Jarvali í Kópavogi.

Hörður verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 10. janúar 2025, og hefst athöfnin kl. 15.

Hann Höddi besti vinur minn er farinn alltof snemma i sumarlandið.

12. desember var og verður hræðilegur dagur, dagurinn sem ég fékk fréttina um að Höddi væri dáinn.

Hann var að sturta úr vörubílum þegar hann varð bráðkvaddur. Það er mín einasta huggun að hann var að gera það sem hann elskaði mest, að vinna.

Ég er búinn að þekkja Hödda í rúmlega 30 ár. Ég sá hann fyrst í Sundakaffi í kringum 1990, þá gerði hann út vörubíl af gerðinni Volvo 86.

Hann og pabbi hans heitinn, Úlfar, voru báðir að borða í Sundakaffi. Þeir sátu sinn í hvorum enda staðarins og kölluðu sín á milli um ástandið á bílnum hjá Hödda. Volvoinn stóð uppi í brekkunni fyrir ofan Sundakaffi með brekkustart eða bilaðan startara og þeir ekki sammála um hvað bæri að gera í vandamálinu.

Ári seinna hittumst við svo í fyrsta skipti þegar hann var að keyra möl í sökkla sem ég var að fylla í. Þau samskipti gengu ekki vel þar sem við vorum báðir ansi ferkantaðir og spöruðum ekki fúkyrðin hvor í garð annars.

Árið 1992 hittumst við næst hjá Dalverki í gatnagerð í Kópavogi. Höddi var þá búinn að missa bílprófið og sendur til mín sem skóflukarl til að grafa heimtaugar fyrir hitaveitu.
Það urðu ekki neinir fagnaðarfundir en tilneyddir fórum við að spjalla. Höddi hafði heyrt að ég væri hættur að drekka. Hann spurði mig hvort það væri rétt, að ef maður hætti að drekka fengi maður skuldaafslátt hjá skattinum? Ég spurði á móti af hverju hann væri að spá í því. Af því bara, svaraði Höddi.

Ég spurði hann nokkrum dögum seinna hvort hann vildi koma með á AA-fund, ég gæti sótt hann og keyrt hann heim eftir fundinn. Hann jánkaði tilboðinu og þar hófst okkar vinskapur sem átti eftir að teygja sig yfir lönd og strönd, heiðar og fjöll, engi og tún í rúm 30 ár.

Eftir að Höddi kom í AA samtökin eyddum við miklum tíma saman. Við unnum saman á tímabili og fórum á AA-fundi. Ófáum kvöldum var eytt á sófanum heima hjá mér í spjall um okkar líðan, gröfur, vörubíla og mótorhjól og enduðu kvöldin oft á því að Höddi sofnaði á sófanum.

Edrúmennskan gjörbreytti lífi Harðar til hins betra. Hann fékk löngun til að lifa lífinu án áfengis. Hans jákvæðni smitaði aðra og hann varð fyrirmynd margra annarra sem þurftu á hjálp að halda til að verða edrú.

Ég átti mótorhjól á þessum tíma og það fannst Herði vafasamt og mótorhjólamenn vafasamur félagsskapur. Það fór nú samt þannig að ég gat fengið Hödda til að kaupa sér hjól og þá byrjaði nýr kafli í okkar annars frábæra vinskap.

Við eyddum miklum tíma i skúrnum að sparka í dekk og pússa króm. Hjóluðum niður á hellurnar eins og við kölluðum Ingólfstorg, við hjóluðum á AA-fundi, hjóluðum með Sniglunum, í sveitina og við eignuðumst marga frábæra vini sem við hjóluðum með um allt land.
Einn af þeim stöðum sem við komum mikið á var bílaverkstæðið hjá Þór heitnum, föðurbróðir Hödda, er við kölluðum okkar á milli Þórshamar. Þar sporðrenndum við ófáum kleinum, drukkum ógrynnin öll af kaffi og spjölluðum um lífið og tilveruna.

Vinur minn var mikill matmaður, elskaði kjöt, helst með kjöti. Fés (sviðakjammar) og léttur (kótelettur) voru í sérstöku uppáhaldi. Hann var nokkuð skarpur í eldhúsinu sjálfur en lét þó síðar Nidiu að mestu sjá um eldamennskuna.

Alls staðar þar sem Höddi kom tók fólk eftir honum. Oft var hann smá ferkantaður í byrjun, en skipti fljótlega yfir í þennan glaða stóra dreng sem vildi öllum gott og eignaðist ótrúlega marga vini og félaga á lífsleiðinni.

Hörður missti bróður sinn Villa í mótorhjólaslysi haustið 2001, það var honum mjög erfitt og reyndi mikið á hann og foreldra hans. Mamma hans óskaði eftir því að Höddi hætti að hjóla, en mótorhjólabakterían var búin að bíta sig fasta í Hörð, svo það varð ekki aftur snúið. Hann lofaði mömmu sinni að fara mjög varlega og stóð við það.

Þótt við vinirnir byggjum ekki í sama landi síðustu 25 árin töluðum við reglulega saman í síma og sáumst 3 til 4 sinnum á ári. Við fylgdumst vel með hvað var að gerast í lífi hvors annars og var vinskapur okkar þannig að við gátum alltaf tekið upp þráðinn þar sem við slepptum honum síðast.

Hörður var mikill gleðigjafi í mínu lífi og fyrir allar þær stundir sem ég hef fengið að hlæja mig máttlausan að því sem hann sagði og gerði verð ég að eilífu þakklátur.

Eitt sinn vorum við að koma að norðan, Hörður keyrði Hvalfjörðinn og það var ausandi rigning. Það sást varla út um framrúðuna en samt sem áður setti hann þurrkurnar ekki á. Hann svaraði því að hann sæi hvort sem væri ekki neitt en gæti sett þær á fyrir mig.

Hörður bar hjarta úr gulli og var alltaf tilbúinn til að aðstoða þá sem þurftu á því að halda, hann lagði gjarnan stóra lykkju á leið sína til að rétta hjálparhönd.

Ástin kom seint inn í líf Harðar en árið 2019 kynntist hann Nidiu. Það varð ást við fyrstu sýn og það var ekki vafi að ör Amors hafði hitt hann beint í hjartastað. Hörður naut þess að elska Nidiu og naut þess að vera elskaður af henni, þau geisluðu af hamingju.

Pálína dóttir Hödda eignaðist son í nóvember 2021, Hrafnkell Hörður heitir drengurinn. Höddi litli eins og við kölluðum hann var afa sínum mjög kær og hann talaði oft um hvað þeir tveir myndu bralla samman þegar Dengsi yrði eldri. Sem betur fer náðu þeir að eiga margar góðar stundir saman þar sem var örugglega bæði minnst á Scaniu og Man.

Höddi minn kæri vinur, þeir segja að tíminn lækni öll sár en ég held að tíminn geti aldrei læknað það sár sem myndast hefur við fráfall þitt. Ég sakna þín og allra okkar samskipta, spjalls um heima og geima um laust og fast og bara að vera saman, því þá vorum við glaðir.



Kæra Nidia, Helga, Pálína og fjölskylda, mínar innilegustu samúðarkveðjur.



Farðu í friði elsku vinur.
Vertu sterkur.
Við munum sakna og vaka.
Hlökkum til endurfunda.

Ást og virðing.



Þinn vinur og Wingman,

Jón Ingi Hannesson.