„Það má segja að við séum að bíða eftir næsta atburði og vitum ekki hvort það verður kvikuhlaup eða eldgos. Jörðin hagar sér með svipuðum hætti og fyrr,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri Suðurnesja. Líklegt þykir að það muni draga aftur til tíðinda á Sundhnúkagígaröðinni um næstu mánaðamót.
Óvissustig er í gildi og segir Úlfar að aðgerðastjórn og vettvangsstjórn fundi tvisvar í viku. Hann segir að vettvangsstjórnin sé við störf í Grindavík en þar séu bæði lögreglumenn, slökkviliðsmenn og starfsmenn á vegum Landsbjargar. Lítið sé um ferðamenn í Grindavík en bærinn sé opinn. gummih@mbl.is