Þegar ég var barn vissi ég ekkert betra en að hverfa inn í heim skáldsögunnar. Sem barn las ég eingöngu skáldsögur en eftir að ég varð fullorðin hefur áhugi minn á tegundum bókmennta breikkað og nú finnst mér skemmtilegast að lesa sitt á hvað skáldsögur og fræðirit.
Bókin Factfulness eftir Hans Rosling er dæmi um fræðibók sem náði mér algerlega. Ég get meira að segja sagt að hún hafi breytt heimsmynd minni. Ég er sérstaklega þakklát fyrir þá bók.
Bækurnar Aldrei nema kona, Aldrei nema vinnukona og Aldrei aftur vinnukona fannst mér stórskemmtilegar. Þetta eru sögulegar skáldsögur sem móðursystir mín Sveinbjörg skrifaði um formæður mínar. Mér fannst merkilegt að lesa um líf þessara kvenna og þar sem ég er í beinan kvenlegg frá sumum þeirra fannst mér ég stundum vera komin aftur í tímann og lifa þetta með þeim.
...