Sýningin Landnám stendur yfir í Hafnarborg.
Landnám er ljósmyndaröð sem Pétur Thomsen hefur unnið í nokkur ár. Þar er sjónum beint að landsvæðum sem hefur verið raskað og breytt til dæmis með landnýtingu, námavinnslu, skógrækt, jarðrækt og vegagerð.
„Ég byrjaði að vinna að þessari ljósmyndaröð árið 2015 og í heild eru verkin einhverjir tugir. Verkin sem eru á þessari sýningu eru átján, flest frá árinu 2024,“ segir Pétur.
Spurður hvar hann hafi tekið myndirnar segir hann: „Ég bý á Sólheimum í Grímsnesi og er búinn að mynda allt svæðið þar í kring og víða á Suðurlandi. Svo hef ég verið í nokkur ár að taka myndir í Teigsskógi og á sýningunni eru myndir af Teigsskógi og nýja vegarstæðinu þar.
...