— Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Það er viku seinkun á sorphirðunni hjá okkur vegna keðjuverkandi ástæðna,“ segir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar. „Það er alltaf óvenjulega mikið sorp á þessum árstíma og síðan þegar tækjabilanir og veikindi bætast við þá verðum við á eftir áætlun. En núna leggur þjónustuaðili okkar allt kapp á að vinna upp seinkunina til að koma sorphirðunni í eðlilegt horf því við viljum öll að þessi mál séu upp á tíu,“ segir Árdís. Vegna þessa hefur rusl safnast upp víða í bænum. Ruslageymslan í Engidalsskóla var t.a.m. ekki fögur ásýndum í vikunni, en þar hafði safnast upp haugur af ruslapokum fyrir utan tunnurnar. „Sökum hálku komst sorphirðubíllinn ekki að tunnunum og töf varð á tæmingu þar.“