Við yfirferð á hinum ýmsu tölvuforritum Seðlabankans vegna þúsaldarvandans fundust a.m.k. 90 forritsaðgerðir sem þurfti að lagfæra og breyta.
Ágúst Úlfar Sigurðsson
Ágúst Úlfar Sigurðsson

Ágúst Úlfar Sigurðsson

Nú eru 25 ár liðin síðan við kvöddum árið 1999 og sá alræmdi dagur 1. janúar 2000 rann upp, dagurinn sem öll tölvukerfi heimsins áttu að hrynja. Þess vegna voru miklar áhyggjur tengdar þessum áramótum.

Orsök vandans var sú að algengt var í tölvukerfum að skrá dagsetningar aðeins með tveggja stafa ártali en í tölvuforritunum var síðan gengið út frá því að tveir fremstu stafirnir væru alltaf þeir sömu, þ.e. „19“. Heimskulegur hönnunargalli myndu sumir segja, en skýringin er augljós: Tölvuminni og geymslurými fyrir tölvugögn voru ákaflega dýr lengi fram eftir tölvuöld og menn reyndu eftir föngum að spara rýmið sem gögnin tóku. Allir vissu að öldin myndi ekkert breytast í bráð. Minna var hins vegar hugsað um líftíma tölvukerfa og afleiðingarnar ef kerfin yrðu langlíf.

...