Hópur innflytjenda frá Rúmeníu hefur í Skotlandi verið fundinn sekur um mansal, kynferðis- og fíkniefnabrot eftir að upp komst um skipulagða glæpastarfsemi þeirra. Er um að ræða fjóra karlmenn og eina konu á aldrinum 34 til 41 árs.
Breskir fréttamiðlar greina frá því að lögreglan í Skotlandi hafi að undanförnu unnið að umfangsmikilli glæparannsókn eftir að grunur um afbrot féll á hópinn. Í samtali við Sky News lýsir rannsóknarlögreglumaðurinn Scott Carswell fólkinu sem „viðurstyggilegu“. Það hafi nýtt sér bága stöðu ungra kvenna í von um skyndigróða. Áfengi og fíkniefnum hafi meðal annars verið haldið að brotaþolum, sem eru konur af rúmenskum og skoskum uppruna, og þær síðan seldar í vændi. Brotin eru sögð sérstaklega gróf og svívirðileg, en málið hefur vakið talsverða athygli þar í landi.