„Enginn á þessi verðlaun meira skilið en Chappell Roan. Hún er áhugaverðasti listamaðurinn seinustu tólf mánuðina og verður nú listamaður ársins 2025,“ sagði Jack Saunders, umsjónarmaður þáttarins New Music Show á BBC Radio 1, en nefnd 180 tónlistarmanna og sérfræðinga hefur valið Roan rödd ársins 2025 hjá stöðinni. Fyrir valinu verður gjarnan sá nýi listamaður sem þykir hafa skarað fram úr en meðal nefndarmanna má nefna Sir Elton John og Dua Lipa.
Chappell Roan var til þess að gera óþekkt stærð í poppheimum við upphaf síðasta árs en naut gríðarlegra vinsælda í fyrra með litríkt synþapopp sitt sem þykir undir sterkum áhrifum frá áttunni.
Roan, sem er 26 ára, var skírð Kayleigh Amstutz og ólst upp í hinum íhaldssama bæ Willard í Missouri, Bandaríkjunum.