Leikhúsið 10 fingur fagnar 30 ára afmæli á þessu ári og af því tilefni verður haldin afmælishátíð í Tjarnarbíói á morgun, sunnudag. Klukkan 14 verður barnasýningin Lífið sýnd, en henni er lýst sem drullumalli fyrir alla fjölskylduna. Sýningin var frumsýnd fyrir 10 árum og hefur síðan ferðast vítt og breitt um heiminn við góðar viðtökur. Klukkan 15 verður boðið upp á afmælisköku. Klukkan 17 hefst málþing þar sem Sigríður Jónsdóttir safnstjóri leikminjasafnsins ræðir við Helgu Arnalds, stofnanda og listrænan stjórnanda 10 fingra, um sögu leikhússins. Klukkan 18 verður nýjasta sýning Helgu sýnd, en hún nefnist Líkaminn er skál. Að sýningu lokinni býðst gestum að taka þátt í skapandi leirstund undir leiðsögn Helgu. Miðar á sýningarnar fást á tix.is.