Sterkir vindar sem spáð er í vikunni munu að líkindum gera slökkviliðsmönnum í Kaliforníu erfitt fyrir næstu daga. Gróðureldar geisa á þremur svæðum í eða við Los Angeles. Yfir tíu þúsund mannvirki hafa brunnið og yfir hundrað þúsund manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Þá hafa sextán dauðsföll verið staðfest en Robert Luna, lögreglustjóri Los Angeles, á von á því að þeim fjölgi nú þegar viðbragðsaðilar eru nýfarnir að leita skipulega að látnum.
Íbúar vilja huga að heimilum
Óþreyjufullir íbúar, sem gert var að rýma heimili sín, biðu í gær eftir því að vera hleypt inn í lokuð hverfi til að athuga eigur sínar. Þurftu sumir að sækja lífsnauðsynleg lyf og gæludýr. Viðbragðsaðilar töldu aðstæður þó hættulegar og sagði Luna í gær að stöðva hefði þurft fylgd með íbúum að heimilum sínum vegna þessa.
...