Edda Björnsdóttir fæddist 10. júlí 1950. Hún lést 21. desember 2024.

Útför hennar fór fram 10. janúar 2025.

Með miklum söknuði kveðjum við okkar ástkæru vinkonu, Eddu. Kynni okkar ná meira en hálfa öld aftur í tímann. Fljótlega eftir að við settumst á skólabekk í Kennaraskólanum við Stakkahlíð ákváðum við að gott væri fyrir okkur að verða vinkonur – og það varð, vinkonur í gegnum súrt og sætt. Við stofnuðum saumaklúbb, Systrafélagið Vonina, og hittumst heima hjá hver annarri tvisvar í mánuði. Það var líka gaman í Kennó, sitja aftast og spila vist eða prjóna. Við stilltum skólatöskunum upp svo að stússið yrði ekki mjög áberandi. Edda okkar var svo dugleg í höndunum, prjónaði og saumaði allt sem hugurinn girntist. Meðan hún var í skólanum bjó hún hjá ömmu sinni og afa á Grettisgötunni og var greinilegt að amma hennar var henni kær.

...