„Friðlýsum Laugarnes“ nefnist ný fyrirlestraröð sem hefur göngu sína í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í kvöld, þriðjudagskvöld, kl. 20. Þar segir Guðmundur Þórhallsson frá aðdraganda að byggingu Holdsveikraspítalans á Laugarnesi sem starfaði á árunum 1898-1943. Inn í þá sögu fléttist stofnun Oddfellowreglunnar á Íslandi árið 1897. Í erindi sínu Lífið á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi fjallar Erla Dóris Halldórsdóttir sagnfræðingur um starfið á spítalanum og hvernig tókst að vinna bug á þessum hræðilega sjúkdómi.
Þriðjudaginn 21. janúar kl. 20 segir Árni Árnason frá hugmyndum sínum um að Ingólfur Arnarson hafi sett bú sitt á Laugarnesi og viku síðar fjallar Þorgrímur Gestsson um Laugarnesið og sögu þess frá landnámi. Samhliða fyrirlestraröðinni stendur safnið fyrir söfnun undirskrifta á island.is til að skora á ráðherra umhverfismála að friðlýsa Laugarnes sem búsetu- og menningarlandslag.