Ragnheiður Torfadóttir, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, lést á Landspítalanum í Fossvogi 12. janúar sl., 87 ára að aldri.

Ragnheiður fæddist á Ísafirði 1. maí 1937 en flutti sex ára með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur. Foreldrar Ragnheiðar voru Torfi Hjartarson, tollstjóri í Reykjavík og sáttasemjari ríkisins, og kona hans, Anna Jónsdóttir.

Ragnheiður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1956, gegndi þar veturinn eftir hálfu starfi rektorsritara og sleit aldrei tengslin við skólann. Hún lauk BA-prófi í latínu og grísku við Háskóla Íslands vorið 1961 og prófi í uppeldis- og kennslufræði 1971. Auk þess lærði hún ítölsku eitt sumar í Perugia á Ítalíu. Eftir 30 ára kennslu settist hún aftur í Háskólann og stundaði nám í íslenskri málfræði og almennum málvísindum meðfram kennslu.

...