Nokkuð hefur borið á tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu vegna skemmda á malbiki. Miklar leysingar urðu um helgina og bera vegir á höfuðborgarsvæðinu þess merki. Þessi hola á Suðurlandsvegi við Rauðavatn hefur valdið fleiri en einum ökumanni vandræðum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að sér hafi borist tilkynningar um níu bíla sem voru með skemmda hjólbarða eftir að þeim var ekið í holur á stofnbraut í austurborginni og tjón varð á jafnmörgum bifreiðum eftir að þeim var ekið í holu í hringtorgi í austurborginni. Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna tjóns á minnst þremur bílum eftir að þeim hafði verið ekið í holu á vegi í íbúðahverfi í austurborginni.