Kjörnir fulltrúar sem ekki eiga svör eiga ekki erindi

Hneykslið vegna vöruskemmunnar risavöxnu, sem Reykjavíkurborg leyfði að reist væri fyrir stofugluggann hjá fólki í Breiðholti, er ekki í rénun. Svörin innan úr Ráðhúsi eru bæði margvísleg og misvísandi, en flest á þá lund að öllum öðrum sé um að kenna, en hvorki hósti né stuna um hvernig rétta megi hlut íbúanna. Þeir geta víst þakkað fyrir meðan skuldinni er ekki skellt á þá sjálfa.

Á föstudag kom þó Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, og svaraði spurningum Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum á mbl.is. Hún varðist fimlega en var helst á því að fyrst kerfið hefði brugðist í einhverju væri réttast að gera það flóknara og auka völd skriffinna. Hún játaði að eitthvað hefði brugðist en taldi engan bera ábyrgð á því.

Vera má að stjórnsýsluathugun leiði í ljós handvömm embættismanna. Þeirra æðstur er borgarstjóri. En

...