Viðtal
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Þannig stóð á að Jón J. Víðis, sem var nú í þjónustu Vegagerðarinnar í rúmlega hálfa öld, var móðurbróðir minn,“ segir Jakob Hálfdanarson tæknifræðingur í samtali við mbl.is. Jakob er horfinn inn í sólskin eftirlaunaáranna, en man tímana tvenna þegar kemur að íslenskri vegagerð, enda starfaði hann á þeim vettvangi frá því snemma á unglingsárum.
Kveikjan að þessu viðtali er ljósmynd sem birtist fyrir jól í Facebook-hópnum Gamlar ljósmyndir, líklega einum stærsta hópi íslensks áhugafólks sem finnanlegur er þar á bók, með 86.000 manns innanborðs, enda ekki örgrannt um að ljúfsárar æskuminningar sæki að mörgum hópverjanum við að sjá gamlar myndir sem tengjast flugsögu Íslands, landbúnaði, löngu horfnum byggingum um
...