Skál! Þorrabjórinn er nú kominn í Vínbúðirnar og það gleður marga.
Skál! Þorrabjórinn er nú kominn í Vínbúðirnar og það gleður marga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Sala á þorrabjór hefst í Vínbúðunum í dag, rúmri viku fyrir bóndadag þegar þorrinn gengur í garð. Þetta árið verða 22 tegundir þorrabjórs í sölu auk þess sem eina tegund þorrabrennivíns er þar einnig að finna.

Dökkar og sterkar bjórtegundir eru sem fyrr í aðalhlutverki á þessum árstíma. Borg brugghús er með fjórar útgáfur af Surtum sem hafa fengið að þroskast eins og gott rauðvín. Þeir eru Surtur 93 og Surtur 8.16 frá 2022, Surtur 30 frá 2017 og Surtur 8 frá 2024.

Af öðrum áhugaverðum þorrabjórtegundum má nefna Súrpung frá Beljanda á Breiðdalsvík og Pung frá sama brugghúsi, áhugaverðasta nafnið er þó vafalaust Ó rock’n’roll ég gefið hef þér öll mín bestu sour frá Skör artisan.

Í gær höfðu 18 tegundir þorrabjórs skilað sér í verslanir Vínbúðanna. Sölutímabili þorrabjórs lýkur 22. febrúar. hdm@mbl.is