Hafsteinn Óli Ramos ætlar ekki að syngja íslenska þjóðsönginn fyrir leik Íslands og Grænhöfðaeyja á heimsmeistaramótinu í handbolta í Zagreb í kvöld.
Hafsteinn er í fyrsta sinn í hópi Grænhöfðeyinga á stórmóti en hann lék áður með yngri landsliðum Íslands og spilar með Gróttu í úrvalsdeildinni.
„Ég þarf að passa mig á að syngja ekki með í þjóðsöngnum því þá gæti fokið í liðsfélaga mína. Þetta snýst um að vanda sig og halda kjafti,“ sagði Hafsteinn þegar Morgunblaðið spurði hann um þessa sérstöku stund.
„Ég vonast auðvitað til þess að fá einhverjar mínútur í þessum leik. Ég er búinn að fylgjast lengi með þessum strákum í sjónvarpinu og á stórmótum. Ég spilaði líka með einhverjum þeirra í yngri landsliðunum. Það verður virkilega gaman að mæta þeim á stærsta sviðinu,“ sagði Hafsteinn Óli.