— AFP/Patrick T. Fallon

Húsarústir og bílflök blasa við vegfarendum í Altadena, skammt norðan Los Angeles, en svæðið varð illa úti í Eaton-gróðureldinum. Óttast var enn í gær að gróðureldarnir í Los Angeles og nágrenni gætu blossað upp að nýju þar sem Santa Ana-vindarnir svonefndu létu til sín taka.

Mældist vindhraði allt að 30 m/s í mestu vindhviðunum. Þá var enn nokkuð um þurran og óbrunninn gróður í nágrenni eldanna, og vöruðu veðurfræðingar við því að nýir eldar gætu kviknað hratt og örugglega.

Slökkvilið Los Angeles og nágrennis taldi sig þó vera vel í stakk búið til þess að bregðast við ef eldarnir færu að breiðast út að nýju. Að minnsta kosti 25 manns hafa nú farist í gróðureldunum.