Lögreglu var á síðasta ári tilkynnt 568 sinnum um kynferðisbrot. Fjölgaði þeim um 10% frá árinu á undan. Tilkynningum um brot gegn börnum fjölgar umtalsvert á milli ára. Þetta kemur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot á síðasta ári.
Í fyrra voru 185 nauðganir tilkynntar til lögreglu, eða rúmlega ein tilkynning annan hvern dag allt árið. Þar af voru 130 tilkynningar vegna nauðgana sem áttu sér stað á árinu. Tilkynningum um nauðganir fjölgaði um 3% frá árinu 2023. Ef horft er til meðaltals tilkynninga síðustu þrjú ár þar á undan fækkaði þeim um 14%. Konur voru 88% brotaþola í öllum kynferðisbrotum sem tilkynnt voru til lögreglu. Hlutfallið var enn hærra þegar horft var til nauðgana, þar voru 95% brotaþola kvenkyns. Hlutföllin snúast við þegar kemur að kyni grunaðra, þar voru 94% karlkyns.