— Morgunblaðið/Eggert

Mikill fjöldi var saman kominn í Guðríðarkirkju í Grafarholti í gærkvöldi þegar 30 ár voru liðin frá því að mannskætt snjóflóð féll á Súðavík. Þeirra 14 sem fórust í flóðinu var minnst og flutti Ómar Már Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík, ávarp.

„Guð blessi minningu þeirra sem fórust í Súðavík og allra sem hafa látið lífið í snjóflóðum. Megi minning þeirra lifa sem viðvörun og hvatning – til að tryggja öryggi, styrkja böndin sem tengja okkur saman og skapa framtíð þar sem líf hvers manns er metið af fyllstu virðingu,“ sagði Ómar.

Við athöfnina voru einnig Halla Tómasdóttir forseti Íslands, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Agnes M. Sigurðardóttir, fyrrverandi biskup Íslands. Þá voru fulltrúar Rauða krossins og Landsbjargar viðstaddir. » 6