„Ég held að það séu 20 ár síðan við fengum síðasta svona vetur,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður Hlíðarfjalls en skíðasvæðið er heldur illa leikið eftir rok- og hitadaga að undanförnu. Lokað hefur verið í vikunni og verður fram yfir helgi hið minnsta.
„Við fengum 10 stiga hita, 20-30 metra á sekúndu og rigningu. Hina heilögu þrenningu af því sem verst er. Það hefur verið óvanalega lítil úrkoma í vetur. Við náðum að hafa opið í tíu daga í byrjun árs en þá vorum við bara með framleiddan snjó.“
Brynjar segir að um leið og aftur fari að frysta hefjist snjóframleiðsla að nýju. Hann vonast til að það verði í dag. „Það er góður grunnur í brekkunum og ef maður fengi ágætis framleiðsluskilyrði er stutt í næstu opnun. Ég held að helgin sé farin, það er ekkert við því að gera, en við stefnum á að taka stöðuna
...