Tamás Verö, rabbíni gyðinga í Búdapest í Ungverjalandi, blés af miklum krafti í svonefnt „shofar“, eða hrútshorn, á minningarstund sem haldin var um þá fjölmörgu gyðinga borgarinnar sem á tímum seinna stríðs voru neyddir af stjórn nasista til að hafast við í Búdapest-gettóinu illræmda. Skammt frá þeim stað þar sem Verö stóð má finna fjöldagrafir sem enn geyma jarðneskar leifar fórnarlamba Þriðja ríkis Þýskalands.
Gyðingar í Ungverjalandi voru, líkt og víða annars staðar í Evrópu, neyddir af nasistum til að yfirgefa heimili sín og flytja í lokuð gettó. Þeir fyrstu sem fluttir voru í Búdapest-gettóið komu þangað 29. nóvember 1944, þegar verulega var farið að halla undan fæti hjá Þriðja ríkinu. Hersveitir Sovétmanna frelsuðu loks gettóið 17. janúar 1945.