Sigurbraut Dagur Sigurðsson á hliðarlínunni hjá Króötum sem eru komnir áfram eftir tvo sigra og munu mæta Íslandi í milliriðlinum í Zagreb.
Sigurbraut Dagur Sigurðsson á hliðarlínunni hjá Króötum sem eru komnir áfram eftir tvo sigra og munu mæta Íslandi í milliriðlinum í Zagreb. — Morgunblaðið/Eyþór

Alfreð Gíslason og Dagur Sigurðsson eru komnir með lið Þýskalands og Króatíu áfram í milliriðla heimsmeistaramóts karla í handknattleik.

Þjóðverjar unnu granna sína frá Sviss í miklum baráttuleik í Herning í Danmörku, 31:29, en Króatar fóru létt með Argentínu, 33:18, á heimavelli sínum í Zagreb.

Þjóðverjar fara í milliriðil eitt og mæta Dönum, Ítölum og annaðhvort Túnis eða Alsír.

Króatar fara í milliriðil fjögur og mæta væntanlega Slóveníu, Íslandi og annaðhvort Grænhöfðaeyjum eða Kúbu.

Aron Kristjánsson og hans menn í Barein töpuðu hins vegar 35:24 fyrir Egyptum sem verða einnig í milliriðli fjögur í Zagreb. Barein mætir Argentínu í hreinum úrslitaleik um að komast í þann sama milliriðil.

Rutger Ten Velde skoraði 11 mörk fyrir Hollendinga sem eru komnir áfram eftir sigur á N-Makedóníu.