Hamar/Þór varð í gærkvöld fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfuknattleik með því að vinna öruggan sigur á fyrstudeildarliði Ármanns í Laugardalshöllinni, 94:65.
Abby Beeman skoraði 20 stig fyrir Hamar/Þór og Hana Ivanusa 11 en Carlotta Ellenrider skoraði 14 stig fyrir Ármann.
Þór vann Hauka á Akureyri, 94:87, í uppgjöri efstu liða úrvalsdeildarinnar á laugardaginn og Akureyrarliðið er greinilega til alls líklegt í undanúrslitunum. Esther Fokke og Amandine Toi skoruðu 21 stig hvor fyrir Þór en Lore Devos fyrrverandi Þórsari skoraði 23 og Tinna Guðrún Alexandersdóttir 15 fyrir Hauka.
Njarðvík vann Tindastól í Reykjanesbæ, 80:73. Brittany Dinkins skoraði 23 stig fyrir Njarðvík og Hulda María Agnarsdóttir 15 en Ilze Jakobsone skoraði 20 fyrir Tindastól.
Grindavík vann Stjörnuna, 72:70. Elín Bjarnadóttir skoraði 21 stig fyrir Grindavík og Diljá Ögn Lárusdóttir 25 fyrir Stjörnuna.