Frammistaða Íslands í fyrri hálfleik var mögnuð. Vörnin stóð gríðarlega vel og skoraði Slóvenía stóran hluta marka sinna í fyrri hálfleik þegar íslenska liðið var manni færri vegna brottvísana. Slóvenska liðið átti lítinn möguleika þegar jafnt var í liðum.
Fyrir aftan vörnina var Viktor Gísli Hallgrímsson stórkostlegur og átti einn af sínum betri leikjum á stórmóti. Góð vörn og markvarsla varð til þess að Ísland skoraði mörg auðveld mörk hinum megin og skoraði íslenska liðið ófá mörkin úr hraðaupphlaupum.
Stundum gekk uppstilltur sóknarleikur verr en hann batnaði töluvert eftir að Aron Pálmarsson kom inn á og skoraði nokkur falleg mörk. Janus Daði Smárason gerði einnig vel í að stýra sóknarleiknum og var útlitið gott í hálfleik í stöðunni 14:8.
...